Að kaupa notaðar bleyjur - hvað þarf að skoða?

Eitt það besta við taubleyjur er að þú getur keypt þær notaðar. Við hvetjum foreldra til þess að nýta sér þennan valmöguleika því þetta bæði sparar pening og er betra fyrir umhverfið.
En auðvitað fylgir ákveðin 'áhætta' þegar við kaupum notaða hluti. Taubleyjur endast mjög lengi þegar hugsað er vel um þær - en þó ekki að eilífu. PUL þynnist, innlegg og ytri lög fá göt og teygjur slakna með tímanum.
Það kemur alltaf sá tími á endanum þar sem við þurfum að sleppa tökunum á vörunni sem bleyju og gefa henni nýjan tilgang. Í þessu bloggi deilum við með ykkur hvað skal hafa í huga þegar þið eruð að skoða notaðar vasableyjur, aio, skeljar og fitted bleyjur.
notaðar taubleyjur - tékklisti
 
Fáðu alltaf að skoða bleyjuna áður en þú borgar fyrir hana.  Þetta á sérstaklega við ef þú kaupir í gegnum Facebook. Myndir segja þúsund orð - en stundum er það ekki nóg til þess að vita nákvæmlega um ástand vörunnar.
 
Þegar þú ert komin með bleyjuna í hendurnar þá skaltu skoða eftirfarandi:

1) Teygjur. Eru þær enn stífar og þokkalegar um lærin? Hvað með að aftan þar sem maður setur innleggið í? Þegar þú togar í teygjuna þá á hún að skjótast til baka - ef þú togar í hana og hún fellur bara til hliðanna þá er bleyjan ekki í góðu standi.
 
2) PUL (vatnshelda ytri skelin). Gott PUL er vatnshelt en andar líka. Ónýtt PUL missir vatnsheldnina og lekur í gegn. Þetta finnst með áferðinni : Það ætti að vera hálfgerð plastáferð á því að innan. Þetta sama plast á heldur ekki að vera að byrja að skilja sig frá bleyjunni. Ef bleyjan er mjög mjúk (næstum eins og silki) að utan þá er PUL-ið líklegast ónýtt.
 
4) Göt. Almennt viljum við ekki göt því göt stækka og það getur lekið í gegnum þau
 
5) Smellur. Það á að þurfa smá átak til þess að smella og losa þær. Einnig passa að smellur séu ekki að losna undan PUL-inu. Ef bleyjan þín er með riflás (velcro) þá skaltu prófa að opna og loka honum líka.
Ath: Ef bleyjan er með riflás þá skaltu skoða ástand bleyjunar einstaklega vel því stundum gleyma foreldar að "loka fyrir" riflásana þegar þær eru þvegnar. Þegar þetta gerist þá festast þær gjarnan við bleyjuna sjálfa og rífa í hana.
 
6) Fyrir AIO bleyjur: Skoðaðu ástandið á innlegginu. Er það nokkuð tætt, snjáð eða rifið?
 
7) Spurðu hversu lengi og hversu mörg börn hafa notað bleyjuna. Almennt er talað um að bleyja dugir í gegnum tvö til þrjú bleyjutímabil. Allt lengra en það er orðið vafasamt þrátt fyrir að það séu til undantekningar á þessu. Einnig er fínt að vita hvernig og- hversu oft bleyjan var þvegin (annanhvern dag? einusinni í viku?) því það segir margt um ástand bleyjunnar.
 
8) Djúphreinsun. Spurðu seljandann hvort það sé búið að djúphreinsa bleyjurnar. Ef svo er ekki þá mælum við með að þú gerir það. Þú veist aldrei hvað bleyjurnar hafa farið í gegnum og við viljum auðvitað að hreinlætið sé upp á 10!

Sjá nánar um hvernig á að djúphreinsa bleyjur hér


að kaupa notaðar bleyjur - taubleyjutorg

Kostir við að kaupa notað
  1. Sparar pening.
  2. Getur prófað mismunandi týpur /gerðir /kerfi bleyja án þess að greiða of mikið fyrir það.
  3. Þú ert að endurnýta vöruna til hins ýtrasta og það er alltaf gott fyrir umhverfið.
 
Gallar við að kaupa notað
1. Eru oft ekki í góðu standi eða eiga lítinn líftíma eftir
2. Stundum erfitt að finna nákvæmlega það sem maður vill, notað. 
 
Hvar get ég keypt notaðar bleyjur?
 
Inná Facebook er síða sem heitir 'Taubleyjutorg'. Þar eru flest allar bleyjur sem eru til sölu á Íslandi. 
 
Hvernig fóru foreldrar að án Barnaloppunnar? Þar er hægt að finna gersemar á mjög litlu verði. Þeir sem selja í loppunni auglýsa það yfirleitt á facebook síðunni lika.
 
Hjá vinum og fjölskyldu
Yfirleitt finnst taubleyjuforeldrum gaman að bera orðið áfram. Þekkirðu einhvern sem hefur verið í taui? Það eru miklar líkur á því að foreldrið sé til í að selja þér eitthvað af sínum bleyjum, sérstaklega ef þau eru hætt í barneignum.
Gangi ykkur vel!

Skildu eftir athugasemd